Fótbolti

Juventus náði ekki að komast á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Modesto og Claudio Marchisio eigast hér við í leiknum í kvöld.
Francesco Modesto og Claudio Marchisio eigast hér við í leiknum í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Juventus mistókst að komast í toppsætið í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið náði aðeins markalausu jafntefli á móti Parma sem var ellefu sætum neðar í töflunni fyrir leikinn.

Þetta var annað markalausa jafntefli Juventus-liðsins í röð á móti liði í neðri hlutanum en liðið gerði einnig 0-0 jafntefli á móti Siena á dögunum. Juventus hefur hinsvegar ekki enn tapað deildarleik á tímabilinu en liðið er með 12 sigra og 10 jafntefli í 22 leikjum.

AC Milan er því áfram á toppnum með einu stigi meira en Juventus en Juve á reyndar enn einn leik inni. Lazio er síðan í 3. sætinu fjórum stigum á eftir Juve.

Guido Marilungo tryggði Atalanta 1-0 heimasigur á Genoa í hinum leik kvöldsins en sigurmarkið kom á 78. mínútu eða ellefu mínútum eftir að Marilungo kom inn á sem varamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×