Fótbolti

Barcelona í flottum málum eftir 3-1 útisigur á Leverkusen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Evrópumeistarar Barcelona eru í frábærum málum eftir 3-1 útisigur á þýska liðinu Bayer Leverkusen í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Sílemaðurinn Alexis Sánchez var hetja kvöldsins hjá Börsungum því hann skoraði tvö fyrstu mörk liðsins sitthvorum megin við hálfleikinn og Lionel Messi innsiglaði síðan sigurinn í lokin.

Barcelona var mun meira með boltann frá byrjun leiks en ekkert gekk hjá liðinu að skapa sér færi. Varnarlínan hjá Bayer Leverkusen leit vel út margir voru farnir að sakna Xavi á miðju Barca.

Þolinmæði Barcelona skilaði sér hinsvegar á 41. mínútu. Alexis Sánchez vann þá skallaeinvígi og boltinn barst til Lionel Messi sem stakk honum inn fyrir vörnina þar sem Sánchez var sloppinn einn í gegn og skoraði undir Bernd Leno.

Fyrri hálfleikurinn var rólegur en þeim mun meira fjör var í þeim seinni. Bayer Leverkusen var ekkert á því að gefast upp því bakvörðurinn Michal Kadlec skoraði með skalla úr markteignum á 51. mínútu eftir fyrirgjöf frá Vedran Corluka.

Alexis Sánchez var aðeins fjórar mínútur að koma Barca yfir á ný eftir að hafa fengið frábæra stungusendingu frá Cesc Fabregas. Sánchez slapp í gegn, lék á markvörðinn og skoraði í autt markið.

Lionel Messi sýndi nokkrum sinnum snilli sýna í seinni hálfleik og innsiglaði síðan sigurinn í lokin eftir sendingu frá Dani Alves. Messi er þar með orðinn markahæstur í sögu útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×