Enski boltinn

Enska landsliðið var í miklu stuði þegar Holland kom síðast á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
England og Holland mætast í kvöld í vináttulandsleik á Wembley en það eru að verða liðin sextán ár síðan að hollenska liðið spilaði síðast við Englendinga á Wembley. Enska liðið var þá í miklu stuði og vann 4-1 sigur á því hollenska í lokaleik liðanna í riðlakeppni EM 1996 sem fram fór á Englandi.

Englendingar tryggðu sér efsta sætið í riðlinum með þessum sigri en liðið mætti síðan Spáni í átta liða úrslitunum. Hollendingar duttu út fyrir Frökkum í vítakeppni í 8 liða úrslitum en verðandi Evrópumeistarar Þjóðverja unnu Englendinga í vítakeppni í undanúrslitunum.

Enska liðið spilaði frábærlega í þessum leik á móti Hollendingum ekki síst á ellefu mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks þegar liðið skoraði þrjú mörk. Alan Shearer og Teddy Sheringham skoruðu báðir tvö mörk í leiknum en Patrick Kluivert minnkaði muninn í lokin.

Alan Shearer skoraði fyrsta markið á 23. mínútu úr víti eftir að Paul Ince var felldur. Teddy Sheringham skoraði annað markið með skalla á 51. mínútu eftir hornspyrnu Paul Gascoigne. Shearer bætti sínu öðru marki við á 57. mínútu eftir undirbúning Gascoigne og Sheringham en þar var síðan Sheringham sem skoraði síðan fjórða markið á 62. mínútu þegar hann fylgdi eftir þegar Edwin van der Sar varði frá Darren Anderton.

Það er hægt að sjá skemmtilegar svipmyndir frá leiknum með því að smella hér fyrir ofan en það má síðan sjá leikinn í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×