Enski boltinn

Parker verður fyrirliði enska landsliðsins í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Parker í einum af 10 landsleikjum sínum.
Scott Parker í einum af 10 landsleikjum sínum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fréttastofur Sky og BBC hafa heimildir fyrir því að Scott Parker, miðjumaður Tottenham, verði fyrirliði enska landsliðsins í leiknum á móti Hollandi í kvöld en tvær af bestu knattspyrnuþjóðum heims mætast þá í vináttulandsleik á Wembley. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Scott Parker tekur við fyrirliðabandinu af John Terry en Stuart Pearce, sem þjálfari enska liðið í þessum leik, valdi Parker frekar en leikmenn eins og Steven Gerrard, Joe Hart, Gareth Barry eða James Milner. Parker hefur leikið mun færri landsleiki en þessir kappar eða aðeins tíu.

Scott Parker stimplaði sig inn í enska landsliðið á síðasta ári eftir að hafa leikið aðeins þrjá landsleiki á árunum 2003 til 2001. Hann er orðinn 31 árs gamall en hefur spilað frábærlega með Tottenham á tímabilinu.

Það búast allir við því Harry Redknapp taki við enska landsliðinu fyrir Evrópumótið í sumar sem ætti síðan aðeins að ýta undir líkurnar á því að Parker verði áfram fyrirliði liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×