Enski boltinn

Liggur ekki á að finna nýjan landsliðsþjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Trevor Brooking, einn forráðamanna enska knattspyrnusambandsins, segir að ekkert liggi á að finna nýjan landsliðsþjálfara. Engar viðræður hafa átt sér stað við mögulega kandídata.

Fabio Capello sagði starfi sínu lausu fyrr í mánuðinum og Stuart Pearce, þjálfari U-21 liðsins, mun stýra Englandi í vináttulandsleiknum gegn Hollandi á morgun.

Yfirgnæfandi líkur eru taldar á því að Harry Redknapp verði ráðinn í starfið en þó eru sögusagnir um að stjórn enska sambandsins sé klofið í afstöðu sinni gagnvart því að ráða Redknapp.

Stjórnin hefur falið þeim David Bernstein, stjórnarformanni sambandsins, Alex Horne framkvæmdarstjóra, Adrian Bevington formanni landsnefndar og Brooking, sem er yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá sambandinu.

„Við höfum rætt málið mikið okkar á milli en ekki við neinn utan sambandsins," sagði Brooking við enska fjölmiðla. „Það liggur ekkert á enda nóg eftir af tímabilinu. Við erum með svo góða leikmenn að þeir munu ná vel saman á EM í sumar, þó svo að nýr þjálfari verði skipaður skömmu fyrir mót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×