Enski boltinn

Capello óskaði Pearce góðs gengis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pearce stýrir æfingu U-21 liðs Englands í Laugardalnum í haust.
Pearce stýrir æfingu U-21 liðs Englands í Laugardalnum í haust. Mynd/Vilhelm
Stuart Pearce, núverandi þjálfari enska landsliðsins, greindi frá því að Fabio Capello hafi óskað sér góðs gengis fyrir landsleik Englands og Hollands á morgun.

Pearce stýrir nú liðinu tímabundið eftir að Fabio Capello sagði af sér fyrr í þessum mánuði. Pearce er venjulega þjálfari U-21 landsliðs Englands.

„Ég hringdi í Fabio þegar hann fór til að þakka honum fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir mig," sagði Pearce. „Hann sendi mér svo SMS á mánudaginn og óskaði mér góðs gengis með starfið. Ég sendi honum skilaboð til baka og þakkaði honum aftur fyrir samstarfið."

„Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir allt sem hann gerði fyrir mig vegna þess að hann tók mér með opnum örmum. Það er mikill lærdómur fyrir mig hafa starfað með manni sem býr yfir hans reynslu."

Pearce hefur engu að síður lagt til að áherslum verði breytt í undirbúningi enska landsliðsins fyrir EM í sumar. Til dæmis að færa til æfingabúðirnar sem áttu að vera í Marbella á Spáni.

„Fabio var búinn að skipuleggja undirbúninginn og hef ég aðeins fiktað í þeim áætlunum. Ég taldi það nauðsynlegt," sagði Pearce en óvíst er hvort að hann muni stýra Englandi á EM í sumar eða einhver annar.

Joe Hart, markvörður Manchester City, segir að Pearce hafi látið liðið æfa vítaspyrnur - meira að segja markverðina líka. „Allt sem hann hefur gert á æfingum hefur snúst um að undirbúa liðið fyrir stórmót í knattspyrnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×