Enski boltinn

Saha fékk hárblástur frá Ferguson þrátt fyrir að skora tvö

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Louis Saha og Alex Ferguson á góðri stundu.
Louis Saha og Alex Ferguson á góðri stundu. Nordic Photos / Getty Images
Louis Saha, leikmaður Tottenham, hefur gefið út ævisögu sína þar sem hann fer yfir feril sinn. Hann segir til að mynda frá samskiptum hans við Alex Ferguson, stjóra Manchester United.

Saha var á mála hjá United í fjögur og hálft ár en þangað kom hann árið 2004. Stuttu eftir að hann kom til félagsins lék United gegn Everton og var 3-0 yfir í hálfleik. Saha hafði skorað tvö mörk.

„Mér leið vel þegar ég gekk til búningsklefa og var stoltur. Um leið og ég settist niður var mér kippt niður á jörðina - Sir Alex Ferguson gerði mig nánast heyrnarlausan," segir í bókinni.

„Þetta kom mér vissulega á óvart enda var hann að öskra á mig. Og ég gerði mér fljótt grein fyrir því hver ástæðan væri. Hann var óánægður vegna þess að við vorum ekki með meiri forystu."

„Við hefðum átt að vera búnir að klára leikinn. Hann var brjálaður vegna þess að ég hafði misnotað góð færi. Hann minnti mig á að við værum í keppni þeirra bestu."

„45 mínútum síðar var staðan orðin 3-3 og Goodison Park logaði. Sem betur fer náði Ruud van Nistelrooy að forða mér frá algjörri martröð með því að skora sigurmarkið í uppbótartíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×