Enski boltinn

Samba: Fór ekki til Anzhi peninganna vegna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Chris Samba segir staðhæfingar Steve Kean rangar og að hann hafi ekki ákveðið að ganga til liðs við Anzhi Makhachkala í Rússlandi peninganna vegna.

Samba lagði inn félagaskiptabeiðni í janúar en var ekki seldur fyrir áður en lokað var fyrir félagaskipti um síðustu mánaðamót. Félagaskiptaglugginn í Rússlandi var hins vegar opinn lengur og því gat Anzhi keypt Samba.

Guus Hiddink var nýverið ráðinn knattspyrnustjóri Anzhi og félagið hefur keypt nokkra þekkta leikmenn að undanförnu. Félagið ætlar sér stóra hluti og það heillaði Samba.

„Það má vel vera að þetta sé lítið félag en það ætlar sér að ná langt,“ sagði Samba við enska fjölmiðla. „Það eru góðir möguleikar á því að þetta lið muni spila í fremstu röð evrópskrar knattspyrnu. Metnaðurinn og fjármagnið er til staðar.“

„Ég var keyptur á tólf milljónir punda og félagið keypti einnig þá Roberto Carlos, Yuri Zhirkov og Samuel Eto'o. Það eru fleiri stór nöfn á leiðinni og veit ég um tvo sem munu koma í sumar. Það á eftir að koma mörgum á óvart.“

„Við viljum gera það sem Manchester City hefur gert í Englandi. Ég sé ekki eftir neinu. Ég er 27 ára gamall og vil gera sem mest úr þeim árum sem ég á eftir í boltanum. Auðvitað vonast ég til þess að Blackburn haldi sæti sínu í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×