Enski boltinn

Tíu milljarða hagnaður Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabregas og Nasri fagna marki í leik með Arsenal.
Fabregas og Nasri fagna marki í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal hagnaðist vel á sölu þeirra Cesc Fabregas og Samir Nasri en félagið hefur tilkynnt hagnað upp á tæpa tíu milljarða króna fyrir fyrri hluta núverandi rekstrarárs, frá maí til nóvember 2011.

Félagið hagnaðist um 9,1 milljarð króna á leikmannamarkaðnum á þessum tíma en tapaði 1,2 milljarði allt árið á undan.

Arsenal stendur vel en eigið fé félagsins er um 23 milljörðar króna. „Við erum stoltir af rekstrinum og þeim stöðgleika sem hefur verið á honum undanfarin ár. Það eru allt til staðar svo að við getum verið áfram í fremstu röð á næstu árum," sagði stjórnarformaðurinn Peter Hill-Wood í viðtali á heimasíðu félagsins.

Framkvæmdarstjórinn Ivan Gazidis sagði þó að árangurinn inn á vellinum skipti mestu máli fyrir félagið - ekki hagnaðurinn eða bankabókin.

„En það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þó svo að eiginfjárstaða félagsins þá getum við ekki notað allan okkar pening í að kaupa leikmenn. Við þurfum að eiga fyrir rekstrinum og launakostnaði auk þess sem að varasjóðir þurfa að vera til staðar," sagði hann.

„Það eru peningar til staðar fyrir knattspyrnustjórann en við ætlum ekki að nefna neinar tölur í því samhengi. Það myndi setja okkur í slæma samningastöðu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×