Handbolti

Magdeburg sigraði botnliðið | Björgvin með góða innkomu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Magdeburg stakk af eftir að Björgvin kom í markið.
Magdeburg stakk af eftir að Björgvin kom í markið.
Björgvin Páll Gústavsson lék seinni hálfleikinn þegar Magdeburg sigraði botnlið Eintracht Hildesheim 36-25 í dag. Magdeburg var aðeins einu marki yfir í hálfleik 17-16. Á sama tíma náði Melsungen jafntefli gegn Flensburg-Handewitt 32-32.

Eftir jafnan fyrri hálfleik í Magdeburg sigldu heimamenn fram úr í upphafi seinni hálfleiks. Munurinn var kominn í sex mörk á 10 mínútum og sigurinn aldrei í hættu. Andreas Rojewski og Ales Pajovic skoruðu sex mörk hvor fyrir Magdeburg og Yves Frafenhorst 5. Michael Jahns var atkvæðamestur Hildesheim með 8 mörk og Steffen Cossbau skoraði 7.

Magdeburg lyfti sér þar með upp í sjötta sæti deildarinnar, með stigi meira en Lemgo en Hildesheim er límt við botninn með aðeins 2 stig í 21 leik.

Nenad Vuckovic tryggði Melsungen stig þegar hann skoraði sitt níunda mark hálfri mínútu fyrir leikslok gegn Flensburg-Handewitt. Alexandros Vasilakis skoraði sex mörk og Christian Zufelde fimm.

Holger Glandorf var markahæstur hjá Flensburg-Handewitt með sjö mörk, Lasse Svan Hansen skoraði sex og Thomas Mogensen fimm en Flensburg-Handewitt er í fjórða sæti deildarinnar, stigi á eftir Hamburg sem á leik til góða. Melsungen er í tíunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×