Enski boltinn

Wenger: Allt fullkomið þrátt fyrir hræðilega byrjun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger. Pat Rice og félagar á bekknum fagna í dag.
Wenger. Pat Rice og félagar á bekknum fagna í dag. Nordic Photos / Getty
Arsene Wenger var í skýjunum með endurkomu sinna manna gegn Tottenham í dag. Liðið lenti tveimur mörkum undir snemma leiks en sneri við blaðinu með fimm mörkum í röð.

„Í dag sýndum við að það er meira lífsmark í Arsenal-liðinu en nokkur taldi fyrir leikinn," sagði Wenger um lið sitt sem hefur verið gagnrýnt ásamt honum vegna slæms gengis að undanförnu.

„Við vorum stórkostlegir í dag, andinn og tæknilega hliðin, krafturinn í öllu liðinu, leikstíllinn sem við kjósum. Þetta var allt fullkomið þrátt fyrir hræðilega byrjun," sagði Wenger sem fannst ósanngjarnt að lið hans lenti undir 2-0 snemma leiks.

Bacary Sagna og Robin van Persie jöfnuðu metin fyrir hlé. Í síðari hálfleik var einstefna að marki Tottenham. Fyrst skoraði Tomas Rosicky áður en Theo Walcott skoraði tvö og tryggði liðinu sætan sigur.

„Þegar við jöfnuðum í 2-2 sást langar leiðir að ef við héldum áfram myndum við vinna leikinn," sagði Frakkinn.

Wenger telur 3. sætið enn innan seilingar þrátt fyrir að Tottenham hafi sjö stiga forskot á liðið.

„Það er ennþá mögulegt, ef við höldum áfram svona. Hvers vegna ekki?"


Tengdar fréttir

Ótrúleg endurkoma hjá Arsenal gegn Spurs

Arsenal vann magnaðan 5-2 heimasigur á Tottenham í Lundúnarslagnum í dag. Gestirnir komust tveimur mörkum yfir snemma leiks og útlitið svart hjá lærisveinum Arsene Wenger. Þeir jöfnuðu hins vegar fyrir hlé og slátruðu gestunum í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×