Enski boltinn

Ótrúleg endurkoma hjá Arsenal gegn Spurs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Robin van Persie fagnar jöfnunarmarki sínu í leiknum undir lok fyrri hálfleiks.
Robin van Persie fagnar jöfnunarmarki sínu í leiknum undir lok fyrri hálfleiks. Nordic Photos / Getty
Arsenal vann magnaðan 5-2 heimasigur á Tottenham í Lundúnarslagnum í dag. Gestirnir komust tveimur mörkum yfir snemma leiks og útlitið svart hjá lærisveinum Arsene Wenger. Þeir jöfnuðu hins vegar fyrir hlé og slátruðu gestunum í síðari hálfleik.

Louis Saha kom gestunum yfir strax á fjórðu mínútu þegar skot hans fór af Thomas Vermaelen í netið af stuttu færi. Emmanuel Adebayor, fyrrum leikmaður Arsenal, kom liðinu tveimur mörkum yfir með marki úr vítaspyrnu. Brotið var á Gareth Bale en um strangan dóm var að ræða.

Heimamenn sneru vörn í sókn og Frakkinn Bacary Sagna minnkaði muninn á 40. mínútu. Greinilegt að Arsenal-menn voru vaknaðir og skömmu síðar skoraði Robin van Persie stórkostlegt jöfnunarmark með skoti fyrir utan teig. Hollendingurinn kominn með 23 mörk í deild, 29 í öllum keppnum og ekkert lát á markaskorun hans.

Í síðari hálfleik réðu heimamenn ferðinni. Tékkinn Tomas Rosicky kom Arsenal yfir með snyrtilegri afgreiðslu af stuttu færi eftir undirbúning van Persie. Það var síðan vængmaðurinn Theo Valcott sem skoraði tvö síðustu mörkin með fínum afgreiðslum úr teignum.

Arsenal skýst upp fyrir Chelsea í 4. sæti deildarinnar með sama markahlutfall en fleiri mörk skoruð en grannar sínir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×