Enski boltinn

Lambert með þrennu og Southampton í toppsætið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lambert og félagar fagna þriðja marki kappans í dag.
Lambert og félagar fagna þriðja marki kappans í dag. Nordic Photos / Getty
Rickie Lambert var hetja Southampton þegar liðið vann 3-0 útisigur á Watford í Championship-deildinni í dag. Með sigrinum komust Dýrlingarnir í toppsæti deildarinnar á kostnað West Ham sem gerði markalaust jafntefli við Crystal Palace fyrr í dag.

Rickie Lambert hefur farið á kostum með Southampton á leiktíðinni. Hann skoraði tvö mörk á fyrstu tuttugu mínútum leiksins og bætti því þriðja við úr vítaspyrnu í síðari hálfleik. Lambert hefur nú skorað 18 mörk í 29 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.

Reading skaut upp í 3. sæti deildarinnar með 2-0 útisigri á Middlesbrough í sex stiga leik. Noel Hunt og gamla brýnið Ian Harte skoruðu mörk gestanna.

West Ham náði aðeins stigi í hádegisleiknum gegn Crystal Palace. Markalaust jafntefli varð niðurstaðan en Hamrarnir geta fagnað því að enginn þeirra fékk reisupassann í leiknum líkt og í þremur síðustu leikjum liðsins.

Þá náði Coventry í mikilvæg stig með 1-0 heimasigri á Barnsley. Hermann Hreiðarsson er frá vegna meiðsla.

Önnur úrslit:

Birmingham 1-2 Nottingham Forest

Brighton 3-0 Ipswich

Bristol 1-3 Blackpool

Burnley 1-3 Millwall

Doncaster 1-1 Peterborough

Middlesborough 0-2 Reading

Portsmouth 0-0 Leeds




Fleiri fréttir

Sjá meira


×