Enski boltinn

Aguero: Tevez er algjör atvinnumaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Félagarnir Tevez og Aguero síðastliðið haust.
Félagarnir Tevez og Aguero síðastliðið haust. Nordic Photos / Getty
Sergio Aguero, leikmaður Manchester City, telur að endurkoma liðsfélaga og landa síns, Carlos Tevez, gæti skipt sköpum í titilbaráttunni. City getur náð fimm stiga forskoti með sigri á Blackburn í síðdegisleiknum í dag.

„Tevez er góður leikmaður og enginn er í vafa um það. Dagurinn sem hann snýr aftur í liðið verður stór dagur fyrir okkur," sagði Aguero í viðtali við The Sun.

„Ég kann betur við hlutina þegar hann er á svæðinu því hann er mikilvægur fyrir liðið. Ég ræddi nokkrum sinnum við hann á meðan hann var fjarri. Hann er algjör atvinnumaður og það var í hans höndum að ákveða framtíð sína," bætti Aguero við.

Spánverjinn David Silva sagði í viðtali við The Guardian að Englandsmeistaratitillinn væri honum jafnmikilvægur og heimsmeistaratitillinn.

„Heimsmeistaratitillinn kom eftir að við höfðum unnið Evrópumótið svo fólk var orðið vant því að vinna," sagði Silva.

Leikur Manchester City og Blackburn er í beinni textalýsingu hér á Vísi síðar í dag og einnig í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 17:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×