Enski boltinn

Skiptar skoðanir hjá stuðningsmönnum Man City um endurkomu Tevez

Roberto Mancini og Carlos Tevez hafa ekki verið perluvinir i vetur.
Roberto Mancini og Carlos Tevez hafa ekki verið perluvinir i vetur. Getty Images / Nordic Photos
Micah Richards, varnarmaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, segir að það komi sér ekki á óvart að margir stuðningsmenn liðsins séu ekki sáttir við endurkomu Carlos Tevez.

Argentínumaðurinn snéri aftur í herbúðir Man City eftir þriggja mánaða fjarveru. Tevez hefur dvalið í heimalandinu í óþökk forráðamanna Man City. Hann baðst afsökunar á framkomu sinni í byrjun vikunnar og gerði upp málin við knattspyrnustjórann Roberto Mancini. Ítalinn hefur gefið það út að öll deilumál þeirra séu nú úr sögunni.

Margir stuðningsmenn Man City eru alls ekki sáttir við framkomu hins 28 ára gamla framherja sem neitaði m.a að fara inná sem varamaður í Meistaradeildarleik með félaginu.

„Það er erfitt að meta hvernig þetta mun fara en ég held stuðningsmenn liðsins skiptist í tvennt í þessu máli. Ef hann einbeitir sér að því að hjálpa liðinu og við verðum enskir meistarar þá munu allir fyrirgefa honum. Ef það tekst ekki þá gæti þetta verið erfitt. Það eru skiptar skoðanir um þetta en sem sem leikmaður er ég ánægður að hafa hann hjá okkur. Hann er frábær leikmaður, og eftir allt þetta frí er hann líklega betri í golfi en hann var áður," sagði varnarmaðurinn.

Mancini hefur gefið það í skyn að Tevez gæti komið inn í leikmannahópinn eftir 2-3 vikur en hann æfir undir handleiðslu einkaþjálfara. Tevez var markahæsti leikmaður Man City undanfarin tvö tímabil og alls hefur hann skorað 52 mörk í 91 leik fyrir félagið.

Man City hefur ekki unnið enska meistaratitilinn í 44 ár eða frá árinu 1968.

Framherjarnir Sergio Aguero, Edin Dzeko og Mario Balotelli hafa skorað samtals 49 mörk á þessari leiktíð fyrir Man City og samkeppnin er því hörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×