Innlent

Játar að hafa ætlað að flytja úrin úr landi

Marcin Tomasz Lech í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Marcin Tomasz Lech í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mynd/villi

Marcin Tomasz Lech, sem er einn fjögurra Pólverja sem komu hingað til lands í október í fyrra til þess að ræna úraverslunina Michelsen við Laugaveg, játaði sinn þátt í ráninu fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ríkissaksóknari krefst fimm ára fangelsis yfir honum.

Marcin er eini fjórmenningana sem er í haldi lögreglu en hinir þrír samverkamenn hans komust úr landi á innan við sólarhring eftir ránið. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn í október í fyrra. Marcin tók ekki beinan þátt í ráninu en hann átti að koma þýfinu úr landi, en það er talið hlaupa á 50 til 70 milljónum króna.

Hann lýsti atburðarrásinni fyrir dómara í dag og sagði meðal annars að eftir að hann hefði grunað að lögreglan væri komin á sporið eftir að þeir hefðu gegnlýst bílinn hans. Hann hringdi í samverkamenn sína, sem voru komnir til Póllands, en þeir sögðu honum að halda ró sinni. Hann játaði að hafa ætla að flytja úrin úr landi en sagðist ekki hafa tekið þátt í ráninu að öðru leyti. Hann var ekki einn af þeim sem fór inn í verslunina.

Ríkissaksóknari krefst þess að Marcin verði dæmdur í fimm ára fangelsi en verjandi hans sagði fyrir dómara í dag að þrjú til fjögur ár væru ásættanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×