Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Geirs Haarde, segir að sér hafi hugnast sú leið Seðlabankans að taka yfir 75% hlut í Glitni mjög illa. Stoðir, einn helsti eigandi Glitnis, færi þá á hausinn og af stað færi bolti sem myndi fella alla bankana.
Tryggvi sat fundi með forsætisráðherra og öllum bankastjórum í fjármálaráðuneyti helgina sem ákveðið var að taka Glitni yfir. Hann var líka staddur á umtöluðum fundi í Seðlabankanum á sunnudagskvöldi þegar formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og fleirum var kynnt ákvörðunin.
Tryggvi segist hafa gert fundarmönnum grein fyrir þessum áhyggjum sínum á þessum tíma. „Þetta væri allt svo samofið að það væri ekki hægt að sundurgreina þetta," sagði Tryggvi og var þar að vísa í krosseignatengsl í banka- og fjármálakerfinu. „Mér fannst menn ekki gera sér grein fyrir þessu," bætti Tryggvi við. Hann sagði þó að seðlabankastjórarnir hafi birt útreikninga um það hversu mikið hlutabréfaverð í Glitni myndi lækka vegna yfirtökunnar.
Tryggvi segir að ekki hafi verið hægt að gera eitt heildstætt plan um það hvernig ætti að bregðast við aðsteðjandi vanda. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að bankafall og bankakreppa getur borið að á hundrað mismunandi vegu og það er ekki hægt að gera eitt plan til þess að bregðast við," sagði Tryggvi.
Innlent