Erlent

Myndband sem tröllríður netheimum - Veist þú hver Joseph Kony er?

Þeir sem hafa verið inn á samskiptasíðum á borði við Facebook og Twitter í dag hafa eflaust orðið var við herferðina um að gera Joseph Kony frægan. Nú hafa nokkrir Íslendingar tekið sig til og stofnað síðu á Facebook sem ber heitið „Making Kony Famous Icelandic Style 2012".

Á internetinu má finna hálftíma langt myndband sem á að vekja athygli á gjörðum Joseph Kony í Úganda en hann rænir börnum og gerir þau að kynlífsþrælum og hermönnum. Herferðinni lýkur í lok þessa árs en forsvarsmenn hópsins segja að með því að gera hann „frægan" sé verið að vekja athygli á voðverkum hans. Vonast er til að þessi herferð verði til þess að hann verði að lokum handtekinn. Í myndbandinu er sagt frá Jacob sem var rænt af hersveitum Kony og hann segir Bandaríkjamanni frá verkum hans.

Hópurinn á bakvið herferðina hefur fengið gríðarlega athygli en hugmyndafræðin á bak við hana er að nota samskiptamiðla á borð við Twitter og Facebook til að vekja athygli á málstaðnum. Aðfaranótt 20. apríl næstkomandi er fólk hvatt til að hengja plaköt á götum úti til að fræða fólk um Kony.

Rúmlega 4000 Íslendingar hafa skráð sig í hópinn á Facebook til að vekja athygli á málstaðnum. Þar er meðal annars rætt um hvort að ekki verði hengd upp plaköt hér á landi þann 20. apríl næstkomandi.

Herferðin hefur fengið gríðarlega athygli og hefur verið fjallað um hana í fjölmiðlum víða um heim. Forsvarsmenn hópsins segja að máttur fólksins sé sterkur og með honum er hægt að hrinda ýmsu í framkvæmd, þar á meðal að stuðla að handtöku Kony. Það eru þó ekki allir sammála þessari hugmyndafræði. Á vefsíðu sem háskólanemi í Kanada hefur sett upp bendir hann á að stórhluti af þeim peningum sem er safnað fari ekki í málstaðinn. Mikill peningur fari í laun fyrir starfsmenn, flug og samgöngur og myndbandagerð.

Hægt er að horfa á myndbandið í myndskeiðinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×