Innlent

Eignir bankanna að stórum hluta loft

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Sigurðsson bar vitni í Landsdómi í dag.
Jón Sigurðsson bar vitni í Landsdómi í dag. mynd/ gva
Geir Haarde hafði mikinn hug á því að koma Icesave inn í breskt dótturfélag, sagði Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, fyrir Landsdómi í dag. „Ég held að það sé ekki hægt að segja að hann hafi vanrækt það að gera það sem þurfti að gera til að fá þessu framgengt," sagði Jón.

Jón sagði líka að lausafjárvandi bankanna hafi í raun verið dulinn eiginfjárvandi. Hann sagði að komið hefði í ljós eftir hrun bankanna að stór hluti eigna bankanna hefði verið loft. Menn hafi verið að fegra eiginfjárstöðu bankanna með því að telja upp eignir sem voru engar raunverulegar eignir

Þetta hafi sett strik í reikninginn varðandi flutning á Icesave-reikningum yfir í breskt dótturfélag Landsbankans vegna þess að eignir úr Landsbankanum þurftu að fylgja með til dótturfélagsins. Jón Sigurðsson sagði að mönnum hafi kannski verið ljóst að eignirnar sem færu á milli landa væru kannski ekki jafn góðar og þær þyrftu að vera til að þetta gengi upp. „Sennilegast hafa landsbankamenn – og vonandi - skilið þetta miklu fyrr en við hin," sagði Jón.

Á meðal þess sem Geir er gefið að sök í ákæru sem saksóknari Alþingis gaf út á hendur honum er að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitast eftir að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×