Fótbolti

Frábær fyrri hálfleikur ekki nóg fyrir Arsenal | AC Milan fór áfram 4-3

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Arsenal er úr leik í Meistaradeildinni þrátt fyrir frábæran 3-0 sigur á ítalska liðinui AC Milan á Emirates leikvanginum í kvöld. AC Milan vann fyrri leikinn 4-0 og þar með 4-3 samanlagt. Arsenal skoraði þrjú mörk í frábærum fyrri hálfleik en tókst ekki að bæta við mörkum í þeim seinni.

Arsene Wenger stillti upp sókndjöfru liði og Arsenal byrjaði leikinn mjög vel. Arsenal-menn fengu síðan sannkallaða draumabyrjun þegar Laurent Koscielny skallaði inn hornspyrnu Alex Oxlade-Chamberlain eftir aðeins sjö mínútna leik.

Tomás Rosicky kom Arsenal síðan í 2-0 á 26. mínútu eftir að Thiago Silva mistókst illilega að hreinsa frá eftir misheppnaða fyrirgjöf Theo Walcott. Allt í einu var Arsenal komið í allt aðra og betri stöðu.

Þetta var sannkallaður draumahálfleikur fyrir Arsenal því Robin van Persie kom liðinu í 3-0 með marki úr vítaspyrnu á 43. mínútu en Alex Oxlade-Chamberlain fékk vítið. Arsenal hafði því meira en einn hálfleik til að bæta við fjórða markinu og jafna metin í einvíginu.

Arsenal fékk tækifæri til að bæta við fleiri mörkum í seinni hálfleik en eins gátu leikmenn AC Milan einnig skorað og gert út um einvígið. Ekkert mark leit þó dagsins ljós og AC Milan slapp með skrekkinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×