Enski boltinn

Rodgers: Gylfi með frábært markanef

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi fagnar öðru marka sinna í dag.
Gylfi fagnar öðru marka sinna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, hrósaði Gylfa Þór Sigurðssyni eftir að hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri liðsins á Wigan í dag.

Mörkin hans Gylfa voru glæsileg - það fyrra með frábæru skoti utan teigs og það síðara beint úr aukaspyrnu.

„Hann býr til mörk og hann skorar mörk," sagði Rodgers. „Þetta er sterklega byggður miðjumaður sem er með frábært markanef þar að auki."

„Það þarf leikmann eins og hann til að standa sig í þessari deild og það sást best á fyrra markinu hans hvað hann er góður - þetta var frábært skot hjá honum."

Swansea er í fjórtánda sæti deildarinnar og ellefu stigum frá fallsæti. „Við viljum bara safna eins mörgum stigum og við getum og svo sjáum við til hvað það færir okkur. Við hlökkum strax mikið til þess að spila aftur um næstu helgi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×