Enski boltinn

Gylfi skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson var maður leiksins þegar að Swansea vann Wigan á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag, 2-0. Gylfi skoraði bæði mörk leiksins og átti þess fyrir utan mjög góðan leik.

Swansea var miklu sterkari aðilinn í leiknum með Gylfa í aðalhlutverki á miðjunni. Liðið náði þó ekki að skora þar til í uppbótartíma. Gylfi fékk þá boltann rétt utan teigs, lagði hann fyrir sig og skrúfaði boltann efst upp í markhornið fjær. Sannarlega glæsilegt mark.

Það síðara var ekki síðar og kom þegar rúmar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfelik. Swansea fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs og skoraði Gylfi beint úr henni - aftur ofarlega í markhornið fjær. Ali Al Habsi, markvörður Wigan, misreiknaði boltann og kom engum vörnum við.

Stuttu síðar fékk Nathan Dyer, liðsfélagi Gylfa, beint rautt fyrir tæklingu. Brendan Rodgers ákvað að bregðast við því með því að skipta Gylfa af velli.

Það kom ekki að sök og Swansea náði að klára leikinn. Mikilvægur sigur enda hafði Swansea tapað tveimur í röð. Liðið er í fjórtánda sæti deildarinnar með 33 stig, ellefu stigum frá fallsæti. Wigan er hins vegar á botninum með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×