Enski boltinn

Wenger íhugar að kvarta undan belgíska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Vermaelen á æfingu hjá Arsenal.
Thomas Vermaelen á æfingu hjá Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er allt annað en ánægður með að varnarmaðurinn Thomas Vermaelen hafi spilað heilan leik með belgíska landsliðinu nú á dögunum.

Belgar mættu Grikkjum á miðvikudagskvöldið en Vermaelen meiddist lítillega í leik með Arsenal um síðustu helgi.

„Leikmaður okkar þurfti að fara meiddur til Grikklands og spila þar í 90 mínútur fyrir belgíska landsliðið. Það er með öllu óásættanlegt og ber vott um vanvirðingu gagnvart leikmönnunum sem og mér sjálfum," sagði Wenger á blaðamannafundi í dag.

Vermaelen missti af næstum öllu síðasta tímabili auk þess sem hann hefur frá í tvo mánuði á núverandi tímabili. „Við ætlum að skoða hvort við getum kvartað undan þessu [við FIFA]. Í fyrsta lagi neyddu þeir hann til að leggja þetta ferðalag á sig og spila svo heilan leik þegar þeir voru með miðvörð á bekknum."

„Þetta var vináttulandsleikur - ekki leikur í úrslitakeppni EM. Mér finnst þetta algjörlega óskiljanlegt. Mér finnst sífellt erfiðara að sætta mig við þessa vináttulandsleiki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×