Enski boltinn

Rooney verður með gegn Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur staðfest að Wayne Rooney verði klár í slaginn fyrir leik liðsins gegn Tottenham á sunnudaginn.

Rooney hefur verið frá síðustu tvær vikurnar vegna sýkingar í hálsi og spilaði síðast gegn Ajax í Evrópudeild UEFA. Rooney hefur þó æft alla vikuna og er tilbúinn.

Hið sama er ekki hægt að segja um Tom Cleverley og Antonio Valencia sem eru enn meiddir. Þá er óvíst hvort að Chris Smalling verði leikfær en hann fékk höfuðhögg í landsleik Englands og Hollands í vikunni.

„Hann fékk ekki heilahristing en nokkuð slæman skurð," sagði Ferguson um Smalling. „Það er ekki víst hvort okkur takist að tjasla honum saman fyrir leikinn. Við þurfum að sjá til hvernig hann verður á morgun."

Hann sagði einnig að Michael Owen sé að komast aftur á skrið eftir að hafa verið frá síðan í nóvember. „Hann hefur ekki verið mjög heppinn að undanförnu og öll hans meiðsli virðast vara í langan tíma. Vonandi kemur hann til baka fyrir lok tímabilsins - það myndi hjálpa okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×