Enski boltinn

David Luiz: Lampard verður að fara hlusta á þjálfarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard faðmar David Luiz í leik Chelsea.
Frank Lampard faðmar David Luiz í leik Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Luiz, varnarmaður Chelsea, hefur gagnrýnt liðsfélaga sinn Frank Lampard fyrir að hlýða ekki stjóranum Andre Villas-Boas en ýmislegt hefur gengið á í samskiptum Villas-Boas og Lampard í vetur.

Það hefur verið mikið skrifað um að Frank Lampard sé hugsanlega á förum frá Stamford Bridge enda hefur portúgalski stjórinn verið óhræddur við að taka Lampard út úr liðinu. Lampard viðurkenndi síðan í síðustu viku að samband hans og stjórans væri ekki alltof gott.

„Það þarf enginn að vera faðir eða sonur í fótboltafélagi. Það er líka enginn sem fær einhverja sérmeðferð hjá Chelsea. Lampard verður að fara hlusta á þjálfarann þegar hann gefur skipanir og fara svo eftir þeim. Það má enginn leikmaður gleyma því að hann er starfsmaður félagsins," sagði David Luiz í viðtali við portúgalska blaðið O Jogo.

David Luiz gagnrýndi jafnframt breska fjölmiðla fyrir að fara illa með Andre og sagði þá nýta sér það hversu auðvelt sé að gagnrýna Portúgalann.

„Það er miklu auðveldara fyrir þá að skrifa um Andre af því að Chelsea er stórlið sem stefnir alltaf á fyrsta sætið. Andre er frábær stjóri og stórkostleg manneskja og hann mun eiga flotta framtíð hjá Chelsea," sagði David Luiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×