Innlent

Ögmundur gekk hálf lamaður út af Svörtum á leik

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
„Ég fór að sjá myndina í gærkvöldi, og hún var hrikaleg," sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, en hann fór að sjá kvikmyndina Svartur á leik í boði Reykjavík síðdegis. Í viðtali á Bylgjunni lýsti Ögmundur upplifun sinni af myndinni. Og það er ljóst að hún hreyfði við ráðherranum.

„Sá veruleiki sem við fengum að sjá í myndinni var ógnvekjandi," sagði Ögmundur sem taldi myndina sýna hryllilegan veruleika undirheima Reykjavíkur á raunsæjan hátt. Ögmundur sagði meðal annars að hann hefði rætt við lögreglumenn sem sögðu myndina varpa nokkuð góðu ljósi á þennan hulda heim sem allt of margir þrífast í.

Ögmundur segir afrek myndarinnar vera þá myrku mynd sem dregin sé upp af þeim sem hrærast í undirheimunum. „Það vill brenna við í kvikmyndum og í fjölmiðlum að fólk, sem stundar það að meiða annað fólk, sé sett á stall þar sem það á ekkert erindi. En í þessari mynd eru engar hetjur."

Ögmundur segir ennfremur að hann hefði rætt við mann sem eitt sinn var á kafi í fíkniefnum um kvikmyndina. Sá sagði veruleikann, sem dreginn væri upp í myndinni, ríma við upplifun sína af þessum heimi, þegar hann tilheyrði honum sjálfur.

Sá sami sagði Ögmundi að það eina sem vantaði í myndina, væri skýrari mynd af því hryllilega kynferðisofbeldi sem á sér stað í fíkniefnaheiminum.

Dómur ráðherrans er því eftirfarandi: „Myndin var sannfærandi, mjög brútal og ofbeldið hart. Allavega gekk ég hálf lamaður út af sýningunni."

Hægt er að hlusta á lengra viðtal við Ögmund í Reykjavík síðdegis hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×