Fótbolti

AZ Alkmaar einum færri í 87 mínútur en komst samt áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í hollenska liðinu AZ Alkmaar komust áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í kvöld þrátt fyrir 2-1 tap á móti Udinese á Ítalíu. AZ-liðið lék manni færri nær allan leikinn og lenti 2-0 undir en gafst ekki upp og náði að skora markið sem kom þeim áfram.

AZ Alkmaar var í góðum málum fyrir leikinn eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum á móti Udinese en hollenska liðið varð fyrir miklu áfalli strax á 3. mínútu þegar Nick Viergever fékk rautt spjald. Antonio Di Natale skoraði úr vítaspyrnunni sem var dæmd og bætti síðan við öðru marki á 15. mínútu.

Erik Falkenburg tókst hinsvegar að skora gríðarlega mikilvægt mark þegar hann labbaði í gegnum vörn Udinese á 31. mínútu og minnkaði muninn í 2-1 leiksins sem þýddi að ítalska liðið þurfti nú að skora tvö mörk.

Rasmus Elm fékk frábært tækifæri til að jafna leikinn og koma AZ í enn betri mál en klikkaði á vítaspyrnu á 64. mínútu.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 78. mínútu leiksins og hjálpaði sínum mönnum að halda velli og tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×