Lífið

Fitnessdrottning með fullt hús af börnum

Freyja með eiginmanninum Haraldi Frey Guðmundssyni, fyrirliða Keflavíkurliðsins í fótbolta og sonunum Jökli Mána, Aroni Frey og Emil Gauta.
Freyja með eiginmanninum Haraldi Frey Guðmundssyni, fyrirliða Keflavíkurliðsins í fótbolta og sonunum Jökli Mána, Aroni Frey og Emil Gauta. MYND/Arnaldur Halldórsson
Freyja Sigurðardóttir keppir á Íslandsmótinu í Fitness 2012 á föstudaginn langa í Háskólabíói í fitnessflokki + 163 cm. Lífið forvitnaðist um undirbúninginn hjá henni fyrir mótið.

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnina samhliða fjölskyldulífinu? Undirbúningurinn er tíu vikna niðurskurður. Mér gekk erfiðlega að byrja að skera niður núna en um leið og ég komst í gírinn þá varð þetta gaman. Ég er með fullt hús af börnum eða þrjá prinsa sem eru átta, fjögurra og tveggja ára gamlir. Það er nóg að gera með þá. En í niðurskurði skiptir mataræðið öllu máli og svo æfi ég tvisvar á dag alla daga vikunnar og einu sinni á dag um helgar.

Hvað borðar þú þegar þú skerð niður fyrir mót? Haframjöl, prótein, ávexti, grænmeti, kjúkling, fisk, nautakjöt, eggjahvítur og vatn. Svona er dagurinn hjá mér og svo er veitingahúsið Nings alveg búið að redda mér. Ég næ mér alltaf í mat hjá þeim þegar ég er að þjálfa í Hreyfingu á þriðjudögum og fimmtudögum.

Þessi niðurskurður hlýtur að taka á? Já, þetta tekur á andlega og líkamlega en ég passa mig bara að fá nægan nætursvefn svo ég höndli þetta allt saman og svo á ég heimsins besta eiginmann sem styður mig 100% í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Þannig að mér líður mjög vel.

Hvernig líður þér þegar þú stendur uppi á sviði klædd í bikiní? Mér líður vel að standa uppi á sviði í bikiníi, þess vegna kem ég alltaf aftur og aftur. Ég er búin að vera að keppa síðan árið 1999 en ég tek það samt fram að ég er bara 30 ára gömul. Veistu, þetta er svo mikið adrenalín-kikk að mæta á sviðið og alltaf að reyna að komast í betra og betra form. Að keppa er bara eitthvað sem ég fæ ekki nóg af.

Að taka þátt í fitness er gaman en líka rosalega dýrt sport. Ég finn mikið fyrir því þar sem ég er á sérfæði í langan tíma og þarf á sama tíma að elda venjulegan heimilismat fyrir strákana mína en ég er mjög heppin að hafa góða styrktaraðila á bak við mig eins og Nings sem fæðir mig, Sci Mix sem útvegar mér fæðubótarefni sem eru nauðsynleg, svo æfi ég í Hreyfingu og fæ hárlengingar hjá hárlengingar.is en hárið skiptir jú líka máli. Þá fæ ég prótíndrykkina hjá Hámarki og Adidas útvegar mér íþróttafatnaðinn.

Ertu stressuð fyrir mótið í ár? Stress. Úff það er misjafnt. Yfirleitt tækla ég stress vel en ég á það til að verða svolítið pirruð í miklu stressi. Það er ekki gott að vera í kringum mig þá. En ég er svo ljúf og góð og skipulögð að það er ekki mikið um stress í kringum mig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.