Lífið

Hefði ekki þurft að ströggla svona mikið

Mynd/VALLI
Vala Matt gerir allt sem hún tekur sér fyrir hendur af ástríðu. Hún sagði Lífinu frá þeirri nýjustu, hápunktum ferilsins og galdrinum á bak við unglegt útlit sitt.

Eins og þekkt er orðið áttu langan og farsælan feril í fjölmiðlaheiminum. Ertu sátt í dag við örlögin og þann stað sem þú ert á í dag?

Ég útskrifaðist eftir sex ára nám í arkitektúr frá Arkitektaskóla Listaháskólans í Kaupmannahöfn. Hafði áður en ég fór í arkitektúrinn ætlað að vinna við leiklist, leikstjórn eða leikmyndahönnun.

Sjónvarpsvinnan og fjölmiðlavinnan í heild sinni hefur svo sameinað öll mín áhugamál. Ég er nákvæmlega þar sem ég á að vera og á þeim stað sem ég stefndi að. Eina sem ég hefði kannski breytt aðeins, þó ég hafi alltaf haft það sem lífsmottó að sjá aldrei eftir neinu, þá hefði ég kannski ekki átt að klúðra tilboðum sem ég fékk um eignarhlut í Stöð 2 og forkaupsrétt á hlut í Skjá einum. Hefði átt að sinna því betur. En ég hef aldrei verið peningamanneskja. Áhuginn var bara ekki nógu mikill. En fyrr má nú rota en dauðrota, eins og sagt er. Þá hefði ég kannski ekki þurft að ströggla jafn mikið undanfarin ár. En það er önnur saga. Segi hana kannski seinna. Ég er mjög sátt þar sem ég er í dag. Enda algjörlega mitt val og ég er mjög hamingjusöm yfir að vera alltaf að vinna við verkefni sem ég hlakka til að takast á við á hverjum degi. Það eru forréttindi.



Hvaða augnablik standa upp úr á ferlinum?

Þau eru orðin þónokkur en það sem má til dæmis nefna þegar við fórum í loftið í fyrsta skiptið á Stöð 2 og ollum þannig fjölmiðlabyltingu á Íslandi og svo einnig þegar við Andri Freyr á Rás tvö tókum viðtal við Þóri Guðmundsson hjá Rauða krossinum og hjálpuðum til við að safna mörg hundruð þúsundum króna til hjálpar börnum í neyð og björguðum þannig barnslífum. Í raun fátt sem getur toppað það síðarnefnda. Það er svo magnað þegar fjölmiðlar eru notaðir til góðs.



Hefurðu upplifað að það sé erfittt að vera kona í fjölmiðlaheiminum?

Ég held að það sé mjög misjafnt eftir fjölmiðlum og jafnvel deildum innan þeirra. Án efa finna einhverjar konur fyrir því. Ég hef verið heppin að því leyti að mín innkoma í fjölmiðlaheiminn var nokkuð sérstök, þar sem ég var með alveg frá byrjun við stofnun tveggja fjölmiðla. Stofnendur Stöðvar 2, Jón Óttar og Hans Kristján, voru til dæmis og eru miklir jafnréttissinnar og ég naut góðs af því. Þess vegna upplifði ég þónokkuð jafnræði þar alveg frá byrjun. En við eigum auðvitað enn eftir að ná meira jafnrétti í fjölmiðlunum á ýmsum sviðum eins og á svo mörgum öðrum vinnustöðum. Ég held að eitt af því mikilvægasta sé launajafnrétti.



Þú ert búin að vera að vinna að spennandi verkefni undanfarið, viltu segja okkur aðeins frá því?

Já, ég var orðin alveg hundleið á því að ferðast um landið og vita ekkert um alla þá frábæru veitingastaði um allt land sem bjóða upp á dýrindis, ferskan og himneskt góðan sælkeramat. Hvergi er að finna samantekt um þessa staði og upplýsingar um þá.

Þegar ég keyri um landið nenni ég ekki að fara einungis í endalausar vegasjoppur og bensínstöðvar bara af því að ég veit ekki um matinn sem alls staðar er að finna á fjölda veitingastaða í öllum landshlutum.

Undanfarið ár hef ég því verið að undirbúa og vinna að mjög stóru og ofboðslega spennandi verkefni þar sem ég er að kortleggja Sælkeralandið Ísland. Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef unnið á mínum fjölmiðlaferli. Þetta er sannkallað fjölmiðladæmi og ég nota alla miðla. Hér er ég líka komin í útgáfustarfsemi sem er nýtt fyrir mér, því ég er að klára flottan bækling sem er í raun lítil bók með sælkerakorti. Svo er ég með sérstakar heimasíður og kvikmyndaefni, sem er eins og ég hef áður talað um, í raun útsending á stærstu sjónvarpsstöð í heimi, Internetinu. Verkefnið mun bjóða upp á nýjustu tækni svo sem QR-kóða, sérstakt App og fleira í þeim dúr en bæklingurinn eða litla bókin með kortinu er notuð jafnhliða bæði fyrir þá sem ekki eru enn með snjallsíma á ferðalögum og eins er mjög þægilegt að hafa heildaryfirsýn yfir staðina í hendinni og í bílnum.

Þetta er gríðarlega skemmtilegt. Svona heildarupplýsingar hafa ekki verið til. Allir staðirnir eru sérvaldir þannig að þú getur gengið að því vísu að þeir bjóði upp á ferskan fisk, eða dýrindis lambakjöt, eða ferskt grænmeti og dásamlega eftirrétti. Þegar ég ferðast skiptir mig miklu máli að geta borðað gómsætan sælkeramat. Bæði í Reykjavík og úti á landi hef ég upplifað mat sem er alveg á heimsmælikvarða, jafn góðan og á flottustu veitingastöðum erlendis. Við eigum svo mikið af góðum kokkum að það er lyginni líkast. Og að miðla þessu á lifandi og skemmtilegan máta er aðalatriðið. Ef ég upplifi eitthvað áhugavert er ég yfirleitt viðþolslaus þangað til ég get miðlað því til sem flestra.



Er Sælkerakortið hugsað fyrir erlenda ferðamenn eða munu Íslendingar njóta góðs af?

Þetta er bæði fyrir erlenda ferðamenn en ekki síður okkur sem hér búum.

Þessar upplýsingar hefur bráðvantað, bæði þegar við Íslendingar og einnig útlendingar ferðast um landið. Aðalheimasíðan er „http://www.icelandlocalfoodguide.is" www.icelandlocalfoodguide.is og svo eru Youtube-síður, Facebook-síður og allt sem þarf. Maríanna Friðjónsdóttir fjölmiðlasnillingur setti upp fyrir mig ensku heimasíðurnar og nú eru íslensku síðurnar í vinnslu og verða fljótlega tilbúnar. Og allt verður klárt fyrir sumarið.

Þannig að þegar þú ferð næst í ferð um landið þarftu ekki bara að sjá sjoppufæðið. Þú getur náð í bæklinginn með kortinu yfir alla sælkerastaðina á Íslandi, en honum verður dreift í Reykjavík og um allt land og svo geturðu einnig skoðað lifandi kvikmyndaefni á netinu, bæði í tölvunni, spjaldtölvunni og snjallsímanum. Svo er þar einnig að finna æðislegar og oft óvenjulegar uppskriftir. Þetta er alveg geggjað.

Á einum veitingastaðnum á Vestfjörðum upplifði ég ævintýri þar sem ég fékk einn besta mat sem ég hef borðað á ævinni. Glænýr fiskurinn, lambið beint af fjallinu og jurtir og kryddplöntur tíndar í fjallshlíðinni, með þvílíkum sósum að ég bað um að fá að sleikja diskinn, sem vakti nokkra kátínu í eldhúsinu. Það er fátt betra. Svo verða einnig frábærar uppskriftir, bæði í litlu bókinni og einnig kvikmyndaðar á heimasíðunum.

Ein fiskuppskriftin hljóðar til dæmis svona: Skerðu glænýjan skötusel í um 2 cm þykka og 10 cm langa strimla. Vefðu einni sneið af beikoni utan um hvern strimil. Steiktu þá í smá olíu í um 2 mínútur á hvorri hlið og helltu síðan rjóma yfir.

Ekkert krydd, bara beikonið. Með glænýjum kartöflum er þetta ótrúlega fljótlegt og lygilega gott. Þetta er eitt af því besta sem ég hef smakkað.



Hver eru helstu mistök Íslendinga þegar þeir fara í ferðalag um landið?

Ég held að helstu mistökin liggi hreinlega í því að við ferðumst ekki nógu mikið um Ísland. Ég verð að viðurkenna að þar var ég áður fyrr engin undantekning. En ég hef verið að breyta því og hvílík dýrð sem þessi einstaka náttúra er sem við eigum og hvílíkir veitingastaðir um allt land. Það er fátt betra.



Áttu þér uppáhaldsstað á landinu?

Kjósin, þaðan á ég dásamlegar æskuminningar frá dýrindis sumrum með fjölskyldunni og þar á ég ættingja úr föðurættinni svo taugarnar liggja alltaf þangað. Þykir óhemju vænt um Kjósina.



Úr náttúrunni í umhverfisátakið, Grænn apríl sem þú leggur nú lið annað árið í röð.

Umhverfisátakið Grænn apríl er alveg einstakt. Guðrún Bergmann og Maríanna Friðjónsdóttir fengu mig til liðs við sig og ég er svo heppin að hafa fengið að vinna með þeim að þessu jákvæða átaki. Ástandið í umhverfismálum í heiminum er orðið skuggalegt og við erum allt of sofandi gagnvart þróun mála á því sviði. Þetta er annað árið sem umhverfisátakinu er hrint af stað í apríl. Skoðað er meðal annars hverjir eru að gera jákvæða og umhverfisvæna hluti, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Og einnig hvað má betur fara. Við sem neytendur höfum gífurlega mikið vald með innkaupum okkar, til dæmis fyrir heimilið.

Það er í raun í okkar höndum að velja að versla frekar græna og umhverfisvæna vöru frekar en vörur skaðlegar náttúrunni. Við höfum fengið velflesta fjölmiðla til liðs við okkur, bæði sjónvarpsstöðvarnar, útvarpsstöðvarnar og blöðin til þess að sem flestir geti tekið þátt og lagt sitt af mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt og ótrúlegt hverju hægt er að áorka í krafti fjöldans. Guðrún og Maríanna eiga skilið að fá fálkaorðuna fyrir frumkvöðlastarf á þessu sviði.



Hvað getur almenningur gert til að leggja sitt af mörkum?

1) Breyta bílnum í metanbíl. Það er minn stærsti draumur og á dagskrá hjá mér. Ekki bara umhverfisvænt heldur sparar fleiri tugi þúsunda á ári í rekstrarkostnaði. Ekki veitir nú af.

2) Flokka ruslið á heimilinu. Það þarf ekki að vera flókið. Hér í fjölbýlishúsinu mínu erum við búin að safna 700.000 krónum á tveimur árum, bara með því að flokka og skila flöskum og dósum sem við fengum greitt fyrir.

3) Við eigum að neita að taka við öllum óþarfa umbúðunum sem settar eru utan um vörurnar þegar við verslum, það er fáránlegt magn og ónauðsynlegt.



Ásamt því að hugsa vel um náttúruna þá ertu þekkt fyrir jákvætt viðmót og unglegt útlit. Hver er galdurinn?

Lífrænn matur eins oft og hægt er og reyna alltaf að finna tækifærin til þess að hlæja og vera glaður. Náttúrulega morfínið endorfín, sem líkaminn framleiðir við hlátur, er sannkallað yngingarmeðal. Ekki alltaf auðvelt, en nauðsynlegt að reyna sem oftast að finna gleðina. Lífið er svo stutt.



Eitthvað að lokum? Ég segi eins og Megas „Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig" og svo finnst mér gott að segja alltaf reglulega við sjálfa mig: Aldrei, aldrei, aldrei að gefast upp!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.