Fótbolti

Ólíklegt að Pato spili meira á tímabilinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maxi Lopez kemur inn á fyrir Pato á Nývangi á þriðjudagskvöldið.
Maxi Lopez kemur inn á fyrir Pato á Nývangi á þriðjudagskvöldið. Nordic Photos / AFP
Ólánið leikur við Brasilíumanninn Alexandre Pato sem þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir aðeins 13 mínútna leik í viðureign AC Milan gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

Pato kom inn á sem varamaður í leiknum en hafði dvalið í Bandaríkjunum nokkrar vikur á undan til að leita bót meina sinna. Í yfirlýsingu frá AC Milan segir að Pato hafi gengist undir röntgenmyndatökur og ljóst að framherjinn verði frá í 10-15 daga hið minnsta.

Ítalska dagblaðið Gazzetta dello Sport segir að þetta sé í 14 skipti síðan 2010 sem Pato er frá vegna vöðvameiðsla. Pato meiddist á vinstra læri í vikunni.

Ítalskir fjölmiðlar taka þann pólinn í hæðina að Pato taki ekki frekar þátt í yfirstandandi keppnistímabili að því er segir í frá Reuters-fréttastofunnar.

AC Milan hefur tveggja stiga forskot á Juventus á toppi ítölsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×