Enski boltinn

Wenger ræddi við McDermott um Gylfa Þór

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er sagður hafa áhuga á Gylfa Þór Sigurðssyni.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er sagður hafa áhuga á Gylfa Þór Sigurðssyni. Nordic Photos / Getty Images
Enska götublaðið The Sun greinir frá því í kvöld að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafi spurst fyrir um Gylfa Þór Sigurðsson, leikmann Swansea.

Gylfi Þór er lánsamaður hjá Swansea frá þýska liðinu Hoffenheim en hann hefur slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni síðan hann kom til Swansea um áramótin.

Í dag var hann útnefndur leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni og var hann fyrsti Íslendingurinn til að fá þá viðurkenningu.

Brian McDermott, stjóri Reading, þekkir vel til Gylfa sem kom til Reading aðeins sextán ára gamall og lék með félaginu til 2010. „Ég hef rætt við Arsene um Gylfa og það segir mér enginn að hann hafi ekki getuna til að spila með Arsenal," er haft eftir McDermott.

Fullyrt er í fréttinni að Wenger sé að undirbúa tilboð í Gylfa en hann hefur áður verið orðaður við önnur stórlið í Evrópu, svo sem Manchester United og Inter á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×