Fótbolti

Skoraði viljandi sjálfsmark og tók 50 milljónir fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýjasti sökudólgurinn í stóra svikamálinu í kringum hagræðingu úrslita í ítalska fótboltanum er Atalanta-maðurinn Andrea Masiello en hann var handtekinn í gær grunaður um að hafa þegið dágóða upphæð fyrir að skora viljandi í eigið mark.

La Repubblica segir frá því að Andrea Masiello hafi þegið 300 þúsund evrur eða meira en 50 milljónir íslenskra króna fyrir að skora í eigið mark í leik með Bari á móti Lecce í ítölsku b-deildinni veturinn 2009-10.

Masiello hefur margoft lýst því yfir að hann sé tilbúinn að aðstoða lögregluna í að upplýsa þetta mál en nú hefur hann skyndilega breyst úr vitni í sökudólg.

Bari var fallið fyrir leikinn en Lecce hélt sæti sínu með því að vinna umræddan leik 2-0. Það stendur einnig yfir rannsókn á leik Bari á móti Udinese í maí 2010.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum með því að smella hér fyrir ofan en sjálfsmarkið hans Andrea Masiello kemur strax í upphafi myndbandsins.

Cristiano Doni og Giuseppe Signori hafa báðir verið dæmdir fyrir aðkomu sína að hagræðingu úrslita í ítalska fótboltanum og Atalanta missti sex stig vegna málsins sem hefur tengt anga sína í gegnum neðri deildirnar á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×