Tónlist

Syngur lag eftir Jóa Helga á næstu plötu

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant sem er staddur hérlendis að vinna aðra breiðskífu sína ætlar að gefa út útgáfu sína af laginu Ástarsorg eftir Jóhann Helgason á væntanlegri annarri breiðskífu sinni. Ekki nóg með það, heldur ætlar hann að syngja íslenskan texta lagsins. Frá þessu greindi hann í útvarpsþættinum Vasadiskó á X-inu í gær. John greindi einnig frá því að hann ætli sér að flytja lagið með Helga Björnssyni á tónleikum þann 17. júní en þeir félgarar eru góðum kunnir eftir að hafa flutt lag saman í Hljómskálanum. Í viðtalinu greindi hann einnig frá því að hann hefði kynnt sér töluvert af íslenskri tónlist frá því að hann kom hingað í janúar. Hann segist hrifinn af Hjálmum, Sing Fan, diskódúettnum Þú og ég og Hauk Morthens. John Grant vinnur nú hörðum höndum með tónlistarmanninum Birgi Þórarinssyni, sem flestir þekkja sem Bigga Veiru úr GusGus. Hann greindi frá því í viðtalinu að það sé töluverð þróun á hljóm hans á nýju plötunni, enda hefur hann hingað til ekki stuðst mikið við raftónlist, en segir þó að hann sé ekki tapa sínum séreinkennum. Frumraun John Grant, platan Queen of Denmark, hefur hlotið lof víða um heim en hún var m.a. valin plata ársins hjá tónlistartímaritinu Mojo árið 2010. Textar plötunnar þykja líka magnaðir en þar gerir John upp alkahólisma sinn og það ferli sem hann gekk í gegnum við að koma út úr skápnum. Fylgist með Vasadiskó á Fésbókinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.