Fótbolti

Toppliðin unnu á Ítalíu | Cesena féll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Boriello fagnar marki sínu í dag.
Boriello fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Fjölmargir leikir fóru fram í ítölsku úrvalsdeildinni í dag en toppliðin tvö, Juventus og AC Milan, unnu bæði sína leiki.

Fjórar umferðir eru nú eftir af tímabilinu á Ítalíu og sem stendur er Juventus á toppnum með 74 stig, þremur meira en AC Milan.

Juventus sigraði Cesena á útivelli í dag, 1-0, með marki Marco Boriello á 79. mínútu. Þetta var fyrsta mark Boriello fyrir Juventus en hann kom til liðsins frá Roma í janúar síðastliðnum.

Með tapinu var ljóst að Cesena er fallið úr ítölsku úrvalsdeildinni en liðið er í neðsta sæti deildarinnar með 22 stig, þrettán stigum frá öruggu sæti.

AC Milan hafði á sama tíma betur gegn Genoa, 1-0, en Kevin-Prince Boateng skoraði eina mark leiksins á 86. mínútu.

Næstu lið eru langt á eftir toppliðunum tveimur en það er þó hörð barátta um þriðja sætið. Lazio er þar nú með 55 stig en tapaði þó fyrir Novara í dag, 2-1. Udinese og Inter koma næst með 52 stig en þessi lið mættust í dag og lauk leiknum með 3-1 útisigri Inter, þar sem Wesley Sneijder skoraði tvívegis.

Roma hefði getað komist upp í 53 stig en liðið tapaði fyrir Fiorentina á heimavelli, 2-1.

Úrslit dagsins:

Novara - Lazio 2-1

Lecce - Napoli 0-2

Palermo - Parma 1-2

Udinese - Inter 1-3

Siena - Bologna 1-1

Cesena - Juventus 0-1

AC Milan - Genoa 1-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×