Lífið

Hvernig ertu undir miklu álagi?

Nadía, Þóra og Sirrý.
Nadía, Þóra og Sirrý.
Við höfum öll áhyggjur á einhverjum tímapunkti lífsins, erum kvíðin, leið eða finnum til streitu. Lífið ræddi við flottar konur sem takast á við álag á mismunandi máta. Þær leggja áherslu á góðan svefn, hreyfingu og skipulag.



1. Hvernig ertu undir miklu álagi?

2. Hvað gerir þú til að standast álag og ná jafnvægi í starfi og leik?

3. Áttu gott ráð til að takast á við álag en ná árangri á sama tíma?

4. Hvernig slakar þú á?



Spýtir í lófana

Nadía Katrín Banine Flugfreyja, 45 ára, tamningakona og hönnuður

1. Þá bretti ég upp ermarnar og spýti í lófana.

2. Þá skiptir miklu máli að að skipuleggja sig vel, nálgast verkefnin með yfirvegun og vera sáttur með það sem maður kemst yfir.

3. Setja sér markmið sem eru framkvæman­leg og skipuleggja ­tímann og leiðina vel að settu mark­miði. Það sem ég hef helst lært er að ætla sér ekki um of, reyna ekki að vera alltaf með of mörg járn í eldinum og það er ­enginn heimsendir þótt að það sé ekki allt fullkomið. Læra að segja nei við sjálfan sig og aðra.

4. Ég slaka helst á með því að horfa út um gluggann minn á fegurðina allt í kring. Sófinn og góð bók, eða einn Friends-þáttur til að létta lundina gera líka kraftaverk.



Ræktar andann

Þóra Karítas Árnadóttir 32 ára leikari og sjónvarpskona

1. Aldrei betri. Þá er lífsorkan í fullu fjöri, góður fókus í gangi og ­enginn tími til að velta sér upp úr neinu eða hafa áhyggjur af einhverju sem skiptir ekki máli. Ef álagið keyrir fram úr hófi þá fer ég að hlakka til þess að hafa meiri tíma fyrir sjálfa mig og reyni að næla mér í kyrrðarstundir yfir daginn.

2. Ég er að byggja mig upp í augnablikinu eftir samfellda tíu mánaða vinnutörn og nýt þess fram í fingurgóma að vera í rólegheitum, borða hollan og góðan mat, rækta andann og slappa af með dásamlegum vinum og fjölskyldu.

3. Oft er gott að gera eitthvað ævintýralegt og í tengslum við náttúruna – ég fékk tækifæri til að dýfa mér ofan í heita vatnið í Grjótagjá í vor þegar ég var í sýningartörn fyrir norðan og það var algjör endurfæðing og vel hressandi fyrir ónæmiskerfið. En annars finnst mér mikilvægt að fá góðan nætursvefn, hlæja í góðra vina hópi og ætli ég verði ekki líka að mæla með hreyfingu og skipulagðri slökun.

4. Eyði tíma með vinum – horfi á góða bíómynd eða les bók, fer í göngutúr, sólbað þegar það er hægt.



Spilar golf

Sirrý Hallgrímsdóttir 41 árs viðskiptastjóri

1. Ég held ég sé bara svona ­frekar afslöppuð undir miklu álagi. Ég á auðvelt með að vinna undir miklu álagi. Ég er vön því. Í ­flestum störfum sem ég hef unnið hef ég verið undir miklu álagi. Það ­hentar mér eiginlega betur en hitt.

2. Ég passa upp á svefninn númer eitt, tvö og þrjú og hreyfa mig reglulega. Vera líkamlega fit. Ég er í golfi en það er mjög afslappandi og ég syndi og hleyp. Ég spila líka einstaka sinnum badminton.

3. Fara snemma að sofa. Vakna snemma. Mæta áður en aðrir mæta í vinnuna og undirbúa daginn. Það er það besta sem þú getur gert.

4. Ég slaka á í góðum félagsskap og spila golf eða fara í göngutúra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.