Viðskipti innlent

Stóri borinn á leið til Færeyja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borpallurinn Cosl Pioneer. Næstu mánuði borar hann dýpstu holu í sögu Færeyja.
Borpallurinn Cosl Pioneer. Næstu mánuði borar hann dýpstu holu í sögu Færeyja.
Olíuborpallurinn Cosl Pioneer er nú á leið á færeyska landgrunnið til að vinna stærsta verkefni í atvinnusögu Færeyja; borun allt að fimm kílómetra djúprar holu fyrir 20 milljarða króna. Ef borinn hittir á það, sem olíufélög telja að þarna leynist undir, gætu Færeyingar á næstu árum orðið ein auðugasta þjóð veraldar.

Borpallurinn lagði af stað frá Noregi í gærmorgun, siglandi fyrir eigin vélarafli, og er væntanlegur á borstaðinn á laugardag. Netmiðillinn oljan.fo segir að venjulega taki tvo til þrjá daga að gera borpall kláran á vettvangi og gerir ráð fyrir að borunin hefjist snemma í næstu viku. Áætlað er að hún taki 4-5 mánuði, eða um 130 daga.

Þrjú félög standa að verkefninu; norska félagið Statoil með 50%, bandaríska félagið ExxonMobil með 49% og færeyska félagið Atlantic Petroleum með 1% hlut. Borsvæðið nefnist Brugdan 2 og er suðaustur af Færeyjum, um 30 kílómetra frá lögsögumörkunum við Bretlandseyjar. Þar er hafdýpi milli 400 og 500 metrar, en áformað er að bora 4.000-5.000 metra niður í jarðlögin undir botninum og komast undir hraunlög sem þar liggja djúpt.

Jarðlögum þarna er talið svipa til þeirra sem vænta má á íslenska Drekasvæðinu og hefur sérfræðingur Olíustofnunar Noregs lýst því mati sínu að niðurstöðurnar sem fást í Færeyjum geti haft áhrif á framvindu olíuleitar við Ísland.

Íslendingar hafa því, rétt eins og Færeyingar, ástæðu til að fylgjast með árangri olíuborsins næstu mánuði. Ekki aðeins gæti hann opnað dyrnar fyrir olíuleit í lögsögu Íslands heldur gæti olíufundur á færeyska landgrunninu jafnframt sogað til sín vinnuafl í stórum stíl frá nágrannaríkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×