Viðskipti innlent

Ríkissjóður tapar 52 milljörðum á VBS, Askar Capital og Saga Capital

Kröfur ríkissjóðs á VBS fjárfestingarbanka, Askar Capital og Saga Capital upp á 52 milljarða króna eru líklega glatað fé að mati Ríkisendurskoðunar.

Þessi fjármálafyrirtæki fengu öll fjárframlög úr ríkissjóði eftir hrunið haustið 2008 en eru nú í slitameðferð. Þetta kemur fram í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir eftir hrunið.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um tap Seðlabankans í hruninu vegna lána til bankanna og það er metið á rúmlega 267 milljarða króna. Óvíst er á þessari stundu hve mikið af því tapi sé hægt að endurheimta.

Einnig kemur fram í skýrslunni að ríkissjóður er í bakábyrgð upp á tæplega 100 milljarða króna vegna yfirtöku Arion banka á innlánaskuldbindingum SPRON. Ýmsar aðrar ábyrgðir sem féllu á ríkissjóð við fall bankanna hafa kostað ríkissjóð um 31 milljarð króna.

Þá er einnig fjallað um björgun Sjóvár og tap ríkissjóðs af viðskiptum með tryggingarfélagið síðar en Ríkisendurskoðun metur kostnað ríkissjóðs af því dæmi vera allt að 4,8 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×