Innlent

Gömul Hitlers-vél í Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þriggja hreyfla þýsk Junkers-flugvél frá stríðsárunum, samskonar og Hitler notaði sem einkavél, lenti á Reykjavíkurflugvelli undir kvöld í sögulegum leiðangri yfir Atlantshaf. Vélin lagði upp frá Köln í Þýskalandi í fyrradag, með viðkomu á Bretlandseyjum og í Færeyjum, og er í leiðangri til Bandaríkjanna þar sem hún mun taka þátt í flugsýningum næstu vikur en um borð eru 17 farþegasæti.

Vélar af þessari tegund, JU-52, voru upphaflega smíðaðar sem farþegavélar upp úr 1930 en þýski herinn nýtti þær síðan til að flytja fallhlífahermenn, til birgðaflutninga og sem sprengjuvélar en einnig til að flytja Adolf Hitler og fleiri leiðtoga Nasistaflokksins. Miðhreyfillinn á nefinu er helsta sérkenni þeirra.

Þetta verður í fyrsta sinn síðan 1937, eða í 75 ár, sem flugvél af þessari tegund, með leyfi til farþegaflugs, flýgur fram og til baka yfir Atlantshaf, milli Þýskalands og Bandaríkjanna.

Nærri fimmþúsund voru smíðaðar en nú eru aðeins átta eftir flughæfar í heiminum. Vélin sem nú er lent í Reykjavík var smíðuð árið 1939 í Þýskalandi en er nú í eigu svissnesk félags sem sérhæfir sig í varðveislu sögulegra flugvéla.

Brottför héðan er áætluð klukkan átta í fyramálið, að því gefnu að varahlutur berist í tæka tíð, en annars verður flugvélin í Reykjavík í tvo daga. Næstu áfangastaðir eru Kulusuk á Grænlandi og Iqaluit í Nunavut í Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×