Innlent

Héraðsdómur: Jóhanna braut jafnréttislög

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Anna Kristín Ólafsdóttir, fékk í dag dæmdar 500 þúsund krónur, í miskabætur frá ríkinu. Hún var umsækjandi um stöðu skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu. Arnar Þór Másson var ráðinn í stöðuna. Anna Kristín krafðist rúmlega 15 milljóna króna fébóta frá ríkinu, en þeirri kröfu var hafnað.

Anna Kristín kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna þegar hún skipaði Arnar í stöðuna. Héraðsdómur Reykjavíkur segir í dómi sínum í dag að sá úrskurður sé bindandi.

Héraðsdómur komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing sem birt var á vef forsætisráðuneytis í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála, þar sem því er meðal annars hafnað að hún hafi verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut og sérstaklega bent á að stefnandi hafi verið fimmti umsækjandi í hæfnismati, ásamt skipun rýnihóps til þess að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í kjölfar úrskruðarins, þess eðlis að bitnað gæti á orðspori stefnanda. Það er á þessari forsendu sem íslenska ríkið er dæmt til að greiða Önnu Kristínu miskabæturnar.

Auk þess sem íslenska ríkið þarf að greiða Önnu Kristínu 500 þúsund krónur mun ríkið jafnframt þurfa að greiða 1600 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×