Íslenski boltinn

Björn Kristinn: Stressið í síðari hálfleik varð of mikið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Kristinn stýrði áður meðal annars kvennaliði Fylkis.
Björn Kristinn stýrði áður meðal annars kvennaliði Fylkis.
„Við skoruðum vissulega í blálokin en áttum níu dauðafæri í fyrri hálfleik, fjórum sinnum einn á móti markverði. Þær áttu eina sókn í fyrri hálfleik, komust einu sinni fram yfir miðju," sagði Björn Kristinn Björnsson þjálfari Selfyssinga að loknu 1-1 jafntefli liðsins gegn KR í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Bæði lið þurftu sárlega á stigunum þremur að halda í fallbaráttu deildarinnar. KR-ingar komust yfir snemma í síðari hálfleik en Selfyssingar jöfnuðu í viðbótartíma.

Björn Kristinn segir það hafa kostað liðið að hafa ekki tekist að skora í fyrri hálfleik þegar yfirburðir liðsins voru miklir.

„Stressið varð of mikið í síðari hálfleik. Það er hættan, eins og við fórum yfir í hálfleik, að ef þú sækir og sækir án þess að skora þá færðu eitt í bakið," sagði Björn Kristinn og sagðist gráta tvö töpuð stig mjög.

Bilið á milli Selfoss og KR í neðstu tveimur sætunum minnkaði ekki. Selfoss hefur fimm stiga forskot á KR og í ljósi þess var mikilvægt að Selfoss tapaði ekki leiknum.

„Það er smá sárabót en ekki meira en það," sagði Björn Kristinn sem færði markaskorarann Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur úr bakverði í stöðu framherja eftir að KR-ingar komust yfir.

„Ég tók Katrínu Ýr úr bakverði og setti í framlínuna. Ég setti framherja á vænginn, setti miðvörð á miðjuna. Ég gerði þessar breytingar kannski of seint. Þetta var mér að kenna," sagði Björn Kristinn.


Tengdar fréttir

Katrín Ýr tryggði Selfyssingum stig

KR-ingar voru sekúndum frá því að landa sínum fyrsta sigri í Pepsi-deild kvenna er liðið fékk Selfoss í heimsókn í kvöld. Katrín Ýr Friðgeirsdóttir jafnaði metin fyrir gestina í viðbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×