Erlent

Ákærur gefnar út í símahlerunarmálinu

BBI skrifar
Andy Coulson.
Andy Coulson.
Saksóknari í Bretlandi tilkynnti í dag hverjir verða ákærðir í hinu svonefna símahlerunarmáli. Meðal þeirra eru Andy Coulson, sem var ritstjóri News of the World blaðsins áður en hann gerðist fjölmiðlafulltrúi David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Rebekah Brooks, sem einnig var ritstjóri.

Ákærur verða í 19 liðum og beinast gegn 8 einstaklingum allt í allt. Málið snýst um símahleranir blaðamanna á blaðinu News of the World sem var í eigu Rupert Murdoch. Útgáfu blaðsins var hætt síðasta sumar eftir að mikil reiði almennings vaknaði vegna málsins.

Með hlerununum tóks blaðamönnum News of the World gjarna að vera fyrstir með fréttir sem engir aðrir vissu um. Meðal þeirra sem símar voru hleraðir hjá voru Hollywood stjörnurnar Brad Pitt og Angelina Jolie, tónlistarmaðurinn Paul McCartney og knattspyrnumaðurinn Wayne Rooney. Þá má nefna 13 ára skólastúlku, Amanda Dowler, sem var myrt en blaðamenn News of the World eiga að hafa brotist inn í talhólfið á símanum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×