Innlent

Sárt að framlög til menningarmála fari í að halda uppi steinsteypu

BBI skrifar
Hjálmar með Listaháskólann í bakgrunn.
Hjálmar með Listaháskólann í bakgrunn. Mynd/GVA
Það er sárt að horfa upp á að framlög hins opinbera til menningarmála fari í „að halda uppi steinsteypu". Þetta segir Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, og er sannfærður um að dýr rekstur Hörpunnar bitni einna helst á menningarstarfsemi í landinu.

„Það er ekki þannig að þetta bitni á landbúnaðarkerfinu eða eitthvað svoleiðis. Þetta lendir bara á menningunni og menningarstarfsemi. Almenningur getur ekki endalaust dælt peningum í hana," segir hann.

Hann vekur máls á því að hallarekstur Hörpunnar í ár, sem nemur líklega 407 milljónum, sé einn sér á við tvo þriðjuhluta af rekstrarkostnaði við Listaháskólans. „Það er blóðugt að horfa upp á þetta þegar maður þarf sjálfur að horfa í hvern fimm þúsund kall," segir hann.

Í viðtali á Rás eitt á síðasta ári viðraði Hjálmar áhyggjur af því að einmitt þetta yrði raunin. „Þetta viðtal við mig í útvarpinu í fyrra vakti mikla athygli og ég fékk harða gagnrýni. En nú finnst mér þetta allt því miður vera að rætast," segir hann. Þar á hann ekki síst við hugmyndir rekstraraðila Hörpunnar um að sinfóníuhljómsveit Íslands og Óperan greiði tvöfalda leigu. Hann telur að ef eitthvað slíkt verði að veruleika muni framlög til annarrar menningarstarfsemi minnka í réttu hlutfalli.

Hjálmar vekur á því athygli að raunin er ekki sú að öllum í menningargeiranum finnist smíði hússins og rekstur vera eðlilegur. „Það er alls ekki þannig að allir listamenn hafi stutt þetta. Á sínum tíma voru forsendur fyrir byggingunni mikið gagnrýndar," segir hann. Hann segir að menn hafi lengi barist fyrir byggingu tónlistarhúss en á þensluárunum fyrir hrun hafi málið einhvern veginn komist úr höndum upphafsmannanna og þá hafi vantað gagnrýnar raddir í ferlinu. „Þetta er flaggmál hrunsins, alger oflátungsháttur," segir hann og telur mikilvægt að aðdragandi og ákvörðunartaka í málinu verði rannsökuð, þá fyrst og fremst til að geta lært af mistökunum.

Hann tekur fram að hann er ánægður með að sinfóníuhljómsveitin er loks komin í almennilegan sal. „En ég er miður mín yfir að starfsemin sé fyrir vikið blóðmjólkuð," bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×