Enski boltinn

Arshavin á leið til Tyrklands? - orðaður við Galatasaray

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Arshavin og Alex Song.
Andrei Arshavin og Alex Song. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andrei Arshavin, fyrirliði rússneska landsliðsins, er á leiðinni í burtu frá Arsenal og nýjustu fréttirnar eru að hann ætli að reyna fyrir sér í tyrknesku deildinni.

Galatasaray er reyndar bara búið að bjóða fjórar milljónir punda í Rússann. Arsenal vill fá sjö milljónir fyrir þennan 31 árs gamla leikmann sem félagið borgaði fimmtán milljónir fyrir á sínum tíma.

Arshavin endaði síðasta tímabil í láni hjá rússneska félaginu Zenit St Petersburg og hjálpaði Zenit til að vinna meistaratitilinn en hann vann engan titil með Arsenal.

Queens Park Rangers hefur einnig sýnt Arshavin áhuga en það eru litlar líkur á því að hann spili áfram á Englandi þar sem hann hefur verið frá því í ársbyrjun 2009.

Umboðsmaður Arshavin hafði fengið það verkefni að grafa upp vænt tilboð frá Austurlöndum en svo gæti farið að Rússinn reyni fyrir sér í tyrkneska boltanum. "Við höfum ekkert á móti því að fara til Tyrklands," sagði Dennis Lachter, umboðsmaður Andrei Arshavin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×