Erlent

Prometheus verður þríleikur

Svo virðist sem að breski leikstjórinn Ridley Scott sé ekki reiðubúinn að yfirgefa söguheim Prometheus. Hann tilkynnti í dag að tvær framhaldsmyndir væru í bígerð.

Gríðarlega eftirvænting var fyrir Prometheus. Kvikmyndin var frumsýnd í júní og halaði inn rúmlega 300 milljónum dollara á heimsvísu, eða það sem nemur 36.5 milljörðum króna.

Prometheus var að hluta til tekin upp hér á landi. Tökur fóru fram í júlí á síðasta ári við rætur Heklu. Íslenskt landslag gegndi veigumiklu hlutverki í myndinni og þótti tæknileg vinnsla kvikmyndarinnar skara fram úr.

Ekki voru þó allir á eitt sáttir með söguþráð Prometheus. Kvikmyndinni var í senn hampað sem hugrökkum vísindaskáldskap og illa ígrundaðri þvælu.

Scott hefur nú gefið út að hann vilji þróa söguna áfram. Aðalleikarar Prometheus, þau Michael Fassbender og Noomi Rapace, munu snúa aftur. Vonast er til að framhaldsmyndirnar verði frumsýndar árið 2014 og 2015.

Það er The Hollywood Reporter sem greinir frá þessu.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá brot út Prometheus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×