Serbinn Novak Djokovic fékk ekki langan tíma til að jafna sig eftir tenniskeppnina á Ólympíuleikunum í London því sömu helgi og leikunum lauk þá var hann í óða önn að tryggja sér sigur á tennismóti í Toronto í Kanada. Nú er Djokovic mættur til Cincinnati í Bandaríkjunum þar sem bíður hans annað mót.
„Ef þú fylgist ekki alveg með hvar þú ert staddur, sem kemur fyrir, þá vaknar þú stundum upp á morgnanna og spyrð sjálfan þig: Í hvaða tímabelti er ég núna?," sagði Novak Djokovic á blaðamannafundi fyrir Cincinnati-meistaramótið. Roger Federer, efsti maðurinn á heimslistanum, og Ólympíumeistarinn Andy Murray verða einnig með á mótinu.
„Það þurfa allir að glíma við þetta en aðallega þó bestu spilararnir. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að keppni á Ólympíuleikum þýðir enn erfiðari og þéttari dagskrá hjá okkur," sagði Novak Djokovic sem datt út fyrir Andy Murray í undanúrslitunum á ÓL og tapaði síðan bronsleiknum á móti Juan Martin Del Potro frá Argentínu.
„Við reynum allir að raða dagskránni okkar í kringum Ólympíuleikanna. Eins og er þá líður mér vel," sagði
Novak Djokovic sem vann Frakkann Richard Gasquet örugglega í úrslitaleiknum á Rogers-bikarnum í Kanada.
