Íslenski boltinn

Elín Metta með sína aðra þrennu í fjórum leikjum - sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen.
Elín Metta Jensen. Mynd/Ernir
Hin 17 ára gamla Elín Metta Jensen hefur farið mikinn í Pepsi-deild kvenna í sumar og skoraði í gær þrennu í 7-1 stórsigri á KR á Vodafonevellinum. Þetta var önnur þrenna Elínar Mettu í fjórum síðustu deildarleikjum Vals en hún er alls búin að skora 13 mörk í 14 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar.

Sporttv.is hefur tekið saman helstu atvik úr leiknum og gert aðgengilegt inn á heimasíðu sinni. Það er hægt að sjá myndbandið með því að smella hér.

Elín Metta skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu sem hún fékk sjálf á 22. mínútu en með því jafnaði hún leikinn í 1-1 því Elizabeth Caroll skoraði með skalla eftir hornspyrnu strax á 4. mínútu. Elín Metta kom Val í 3-1 með sínu öðru marki á 42. mínútu með skutluskalla eftir flotta fyrirgjöf Rakelar Logadóttur og innsiglaði síðan sigurinn með því að skora þriðja markið á 89. mínútu með glæsilegri afgreiðslu eftir aðra stoðsendingu frá Rakel.

Rakel Logadóttir kom Val í 2-1 á 41. mínútu eftir frábæra sendingu frá Svövu Rós Guðmundsdóttur, Mist Edvardsdóttir skoraði fjórða markið á 68. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Dóru Maríu Lárusdóttur og Svava Rós Guðmundsdóttir kom Val í 5-1 á 83. mínútu eftir stungusendingu frá Elínu Mettu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×