Fótbolti

Stjóri Juventus í tíu mánaða bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Juventus, hefur verið dæmdur í tíu mánaða bann af ítalska knattspyrnusambandinu.

Juventus varð meistari á síðasta tímabili og tapaði ekki deildarleik allt tímabilið. Þetta var fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Conte sem var áður stjóri Siena.

Hann var fundinn sekur um að hafa ekki tilkynnt grunsemdir um hagræðingu úrslita leikja með Siena tímabilið 2010-2011. Conta hefur þó ávallt haldið fram sakleysi sínu og ætlar að gera það áfram.

Málið tengist viðureign Siena og Novara í apríl í fyrra en víðtækar rannsóknir hafa farið fram vegna grunsemdir um hagræðingu leikja í efstu tveimur deildum Ítalíu undanfarin ár.

Lögreglan framkvæmdi húsleit á rúmlega 30 stöðum í maí síðastliðnum, til að mynda hjá leikmönnum, þjálfurum og forráðamönnum knattspyrnufélaga. Félögin Grosseto og Lecce hafa bæði verið dæmd úr ítölsku B-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×