Sjö félög hafa orðið Íslandsmeistarar í knattspyrnu kvenna en það gæti breyst eftir 16. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Lið Þór/KA á nefnilega möguleika á því að verða Íslandsmeistari í Vestmannaeyjum í kvöld.
Þór/KA heimsækir íBV á sama tíma og nýkrýndir bikarmeistarar Stjörnunnar spila á móti Aftureldingu í Mosfellsbænum. Vinni Þór/KA á sama tíma og Stjarnan tapar stigum þá er Íslandsmeistaratitilinn kominn norður í fyrsta sinn.
Þór/KA er með sex stiga forskot á Stjörnuna þegar þrír leikir eru eftir en ÍBV á enn smá von á titlinum því Eyjakonur eru sjö stigum á eftir toppliði Þór/KA. Eyjaliðið hefur því að miklu að keppa í leiknum en ÍBV vann Þór/KA 4-1 í fyrri leiknum á Akureyri sem er eina tap Þór/KA í deildinni í sumar.
Þór/KA hefur verið afar öflugt á útivöllum en liðið er taplaust í ferðum sínum suður og hefur náð í 19 af 21 stigi í boði í útileikjum sínum. Einu stigin töpuðust í jafntefli við Val á Vodafonevellinum og markatala norðankvenna á útivelli er 21-7.
Leikur ÍBV og Þór/KA hefst klukkan 18.00 en hann verður í beinni útsendingu í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport 3 sem og hér inn á Vísi.
Íslandsmeistarar kvenna frá upphafi:
15 sinnum Breiðablik
10 sinnum Valur
6 sinnum KR
4 sinnum FH
3 sinnum ÍA
1 sinni Ármann
1 sinni Stjarnan
