Menning

Fantasíur rjúka út

"Viðtökur Fantasía hafa komið okkur ánægjulega á óvart en ég held að íslenskar konur hafi langað í bók af þessu tagi lengi," segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, en fyrsta upplag, 2.500 eintök, er uppselt hjá útgefanda og annað jafn stórt upplag er í prentun.

"Til að mæta þessari eftirspurn erum við að hraða útgáfu rafbókarinnar sem kemur út í dag [í gær]. Við höfum aldrei fylgt prentaðri bók jafn hratt eftir með rafbók þannig að þetta eru tímamót hjá okkur."

Í Fantasíum eru birtar kynlífsfantasíur sem ritstjóri bókarinnar, Hildur Sverrisdóttir, valdi úr fjölda aðsendra sagna. Egill segir velgengni bókarinnar einkum byggja á því hversu góðar sögurnar eru og hversu vel bókinni er ritstýrt.

"Íslenskar konur sendu frábært efni sem Hildur vann svo úr. Auðvitað vekur efni af þessu tagi umræðu og áhugi en forsendan fyrir sölunni er að bókin sé góð."

Egill telur ekki beint samband á milli bókarinnar og umræðu sem metsölubókin Fifty Shades of Grey hefur vakið en hún kemur raunar út í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu eftir helgi. "Þær eru vissulega skyldar þannig að þær eru erótískt efni og erótískt efni er það sem allt snýst um í bókabransanum í dag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×