Innlent

"Crossfit er galin líkamsrækt“

BBI skrifar
Mynd/Anton Brink
Íþróttafræðingur segir að nýjasta æðið í heilsurækt Íslendinga, hið svonefnda crossfit, sé afar gagnrýnivert. Upp til hópa geri iðkendur flóknar tæknilegar æfingar vitlaust undir leiðsögn ólærðra þjálfara og það geti stofnað heilsu þeirra í hættu til framtíðar.

Þórdís Lilja Gísladóttir, ólympíufari, íslandsmeistari í hástökki og íþróttafræðingur við Háskólann í Reykjavík, gerir margþættar athugasemdir við crossfit æðið. Hún segir að það sé drifið áfram af markaðsöflum og snúist minna um heilsu iðkenda en að græða peninga.

Í fyrsta lagi telur hún fyrirkomulagið sjálft galið. Crossfit snýst um að iðkendur gera allir svonefnda æfingu dagsins. Þannig á æfingin að henta öllum, jafnt byrjendum sem lengra komnum. „Hugmyndin er galin. Þeir sem eru í toppformi æfa náttúrlega öðruvísi en byrjendur," segir hún og finnst fáránlegt að miða við fyrirframskrifaða æfingu án þess að huga neitt að því hvaða fólk sé í salnum og hvað henti því.

Þórdís Lilja Gísladóttir tekur við Samfélagsverðlaunum Fréttablaðsins sem uppfræðari ársins fyrir að standa að framúrskarandi íþróttastarfi.
Í öðru lagi brýtur crossfit kennslan öll lögmál þjálffræði. „Við erum búin að læra þjálffræði, hvernig samspil hvíldar og ákefðar á að vera o.s.frv. Þetta eru fræði byggð á rannsóknum en þau eru öll brotin í crossfit tímum. Fólk er að gera 150 hnébeygjur í einum tíma. Ég er afrekskona í íþróttum og ég hef aldrei á ævinni gert 150 hnébeygjur í einum tíma. Það er ekki heil brú í þessu," segir hún.

Í þriðja lagi eru öll lögmál í kennslufræði brotin. Fólk í crossfit gerir mjög flóknar tæknilegar æfingar og ólympískar lyftingar. Fólki er varpað út í æfingarnar án þess það hafi nokkur grunn sem talandi er um í æfingunum. „Það að snara og clean-a (ólympískar lyftingar) eru mjög flóknar æfingar. Ég var búin að læra það í tvö ár áður en það fór að gefa fyrir mig. Þarna er fólk komið með þyngdir um leið," segir hún. Auk þess eru gerðar fleiri endurtekningar af lyftunum í hverjum crossfit tíma en Þórdís telur æskilegt. „Ég man ekki eftir að hafa gert fleiri en sex endurtekningar á mínum ferli. Þarna gerir fólk tugi endurtekninga," segir hún.

Mynd/Anton Brink
Að lokum telur hún að þjálfarar í crossfit hafi oft ekki mikla menntun eða reynslu á því sviði. Það sé umhugsunarvert. „Fólk verður að spyrja sig: Hjá hverjum er ég að æfa? Hefur hann einhverja þekkingu á því sem hann er að kenna mér," segir hún.

Hún segir að allt sé þetta verulegt áhyggjuefni hjá íþróttafræðingum og vill að lokum, sem lektor í íþróttafræði, benda fólki á að það sé „enginn vandi að láta fólk verða þreytt eftir æfingu. En það eru mikil fræði að láta fólk þjálfa rétt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×